Jarðvangsvika Kötlu jarðvangs 2024

Jarðvangsvikan 2024 var haldin hátíðleg í síðustu viku með mörgum viðburðum og tilboðum. Jarðvangurinn vill hér með þakka öllum þeim sem tóku þátt í vikunni, þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem tóku þátt og auðvitað þeim öllum sem mættu á viðburði eða nýttu sér tilboðin.

Eins og vanalega voru tilboð, viðburðir og jarðvangsvikuvörur frá fjölmörgum fyrirtækjum, m.a.

Zipline, Katlatrack, Skool Beans, Lava Show, Valdís, Katla Wool, Midgard, Ey Collection, Hótel Klaustur, Hótel Kría, Lava Centre, og Nonna og Brynjuhúsi,

Það sem m.a. gerðist í vikunni var að Víkurskóli og jarðvangurinn vígðu fræðsluskilti um Víkurfjöruverkefnið, en þau eru til sýnis á göngum Icewear í Vík. Þá var opið hús í Nonna og Brynjuhús í Álftaveri, en einnig vinnustofa og teikninámskeið. Jarðvangurinn var með fyrirlestur um jarðfræði Skaftárhrepps og viljum við nýta tækifærið og þakka Vatnajökulsþjóðgarði fyrir gestrisnina.

Jarðvangurinn og Lava Centre tóku sig einnig saman og höfðu leiðsögn um sýninguna í Lava Centre. Hjörleifshöfðahlaupið var auðvitað á sýnum stað og var met mæting í ár, annað árið í röð. Það er Kötlusetur sem sér um hlaupið og þau hafa staðið sig ótrúlega vel í uppbyggingu hlaupsins undanfarin ár. Í lok hlaupsins fengum við síðan að sjá náttúruna í öllu sínu veldi, þegar skýstrókur myndaðist á Mýrdalssandi. Kolbrún, Svara og Esteban fór með okkur á framandi slóðir í myndasýningu í Víkurskóla, Ungmennafélagið Ás stóð fyrir göngu að Orustuhól, Midgard var með fjölda viðburða, og Hótel Kría var með tónleika. Rúsínan í pulsuendanum var síðan fésbókarkosning um hvaða fjall ætti að verða “fjall Kötlu jarðvangs”, en hún stóð yfir alla vikuna og var það á endanum Hafursey sem varð hlutskörpust og er vel að titlinum komin.