Valáfangi Kötlu jarðvangs í Víkurskóla

Á haustönn 2023 sem nú er nýafstaðin, stóð jarðvangurinn fyrir valáfanga í Víkurskóla. Valáfanginn var í raun framlenging á Víkurfjöruverkefninu, sem er fjörurannsóknarverkefni nemenda Víkurskóla í samvinnu við jarðvanginn og Kötlusetur og hefur verið í gangi síðan 2021. Er þetta í annað skiptið sem jarðvangurinn hefur verið með valáfanga í Víkurskóla og er stefnt á að þetta verði fastur liður í starfsemi jarðvangsins í framtíðinni. 

Í valáfanganum mældu nemendur fjöruna líkt og í verkefninu, en nú var hver nemandi með sitt snið í fjörunni og nægur tími gafst fyrir hvern nemenda að vinna sjálfur úr sínum mælingum. Þá tók hver nemandi einnig sandsýni úr fjörunni og voru þau síðan þurrkuð og sigtuð til að finna dreifingu á kornastærð. Þá skoðuðu nemendur einnig sandsýnin í smásjá, ásamt sandi frá öðrum stöðum á Íslandi og erlendis frá til samanburðar, lýstu sandinum og tóku ljósmyndir af honum. Þá flugu nemendur einnig dróna yfir Víkurfjöru og tóku loftmyndir og ljósmyndir af fjörunni til varðveislu fyrir framtíðina. Samhliða rannsóknum nemenda lærðu þeir m.a. einnig um sandfangarana í Víkurfjöru og hvernig þeir virka, öldur og öldustefnur, rof og landbrot í fjörum og hvað það er sem veldur því, ásamt því að læra aðeins um sjávarskafla (tsunamis). Nemendurnir öðluðust því góða alhliða þekkingu á strandsvæðum í áfanganum og vill jarðvangurinn þakka þeim og Víkurskóla fyrir ánægjulegan áfanga.