Dyrhólaey
Dyrhólaey er móbergstapi í Mýrdal sunnan Mýrdalsjökul og var lengi vel syðsti tangi landsins, eða frá því að framburður jökulfljóta tengdi eyjuna við landið á lok Ísaldartíma og fram til ársins 1918 þegar Kötlutangi fyrir sunnan Hjörleifshöfða myndaðist vegna gossins í Kötlu. Eyjunni er oft skipt í tvennt. Háey vestan til sem er úr móbergi og Lágey að austan sem að meginstofni er úr grágrýti. Miklir hamrar girða alla eyjuna nema kafla að norðanverðu. Upp úr hafinu undan Dyrhólaey standa sker og drangar. Hæstur er Háidrangur sem er þverhníptur, 56 m hár. Aðrir drangar eru Máfadrangur, Lundadrangur og Kambur. Dyrhólaey er yfir 120 m há. Lengd hennar frá austri til vesturs er um 2 km en breiddin er tæpur 1 km. Suður úr Dyrhólaey er mjór bergrani, um 100 m á hæð, með lóðréttum hamraveggjum frá hafi og upp á brún. Þar er gatið eða dyrnar sem eyjan dregur nafn sitt af.
Dyrhólaey myndaðist á síðasta hlýskeiði Ísaldartímans við neðansjávargos sem hagaði sér líkt og Surtseyjargosið og er talin vera um 100 þúsund ára gömul. Líklega hafa gosin verið tvö og varð fyrra gosið í gossprungu á austanverðri eynni. Þá gaus einnig gjóska og hafrótið át eylandið til agna nema nokkra gígtappa eins og Stamp, Sker og Skorpunef. Mun öflugra og stærra gos varð vestar örlítð seinna. Það hófst líklega með mikilli sprengivirkni, gosefnið var einungis gjóska. Þegar leið á gosið hækkaði eyjan og fór gosið að hegða sér á annan hátt, því sjór náði ekki lengur í gígrásina. Dyrhólaey er því í rauninni stapi sem rís úr sjó. Hún var mun stærri, en sjór og Ísaldarjöklar hafa molað úr henni.
Í Dyrhólaey er mikilvægt fuglavarp og hefur svæðið verið friðað síðan 1978.