Næstlengsti manngerði hellir á Íslandi.
Efra-Hvolshellar
Í landi Efra-Hvols eru þrír manngerðir hellar sem kallast einu nafni Efra-Hvolshellar. Hellarnir eru grafnir í fremur gróft þursaberg sem hugsanlega er jökulberg að uppruna. Neðan til er bergið fínna, gert úr lagskiptum, víxllaga og skálaga sandsteini. Tveir hellanna eru samtengdir með göngum og nefnast þeir Efsti hellir og Miðhellir. Sá þriðji stendur stakur 20-30 metrum sunnar og nefnist Stóri hellir. Hann er um 42 metrar á lengd, og er talinn næstlengsti manngerði hellir á Íslandi. Ekki hafa fundist ummerki mannvistar í hellunum en það hefur ekki enn verið rannsakað með fornleifafræðilegum aðferðum. Síðast voru hellarnir notaðir sem fjárhús og hlaða en hafa staðið auðir og ónotaðir síðan 1943 og verið friðlýstir síðan árið 1929 sem menningarminjar.
Loftop Stóra hellis hefur að hluta til hrunið og mold fyllt göngin. Búið er að moka út úr hellunum að hluta í samráði við Minjastofnun Íslands, en fara skildi með aðgát um þá vegna hrunhættu. Auðvelt er að heimsækja hellana og ætti þeir að vera færir flestum. Bílaplan er við hellana og liggur um 160 metra greiðfær stígur að þeim frá bílaplaninu, en tröppurnar sem leiða að hellunum eru brattar og ætti fólk því að fara varlega þar. Þá er gott að hafa það í huga að hellarnir fyllast gjarnan af snjó yfir vetrartímann og því ekki alltaf færir.
Hellarnir eru rétt fyrir utan Hvolsvöll og er leiðin að þeim vel merkt. Beygja þar út af þjóðvegi 1 inn á Fljótshlíðarveg og fylgja honum í gegnum Hvolsvöll. Stuttu eftir að keyrt er fram hjá kirkjunni á Hvolsvelli er beygt til vinstri inn á Vallarveg og eftir um 2 km er beygt inn á Þórunúpsveg og honum fylgt stuttan spöl þangað til komið er að bílastæðinu fyrir hellana. Svæðið í kringum hellana er mjög fallegt og er aðstaða til að borða nesti þar, t.d. bekkur. Vinsamlegast gangið vel um svæðið og skiljið ekki eftir rusl, og þá er lausaganga hunda bönnuð á svæðinu.