Paradísarhellir, undir Eyjafjöllum, er einn af þekktustu hellum landsins

Paradísarhellir

Paradísarhellir

Paradísarhellir, undir Eyjafjöllum, er einn af þekktustu hellum landsins, ekki hvað síst fyrir að hýsa Hjalta Magnússon (Barna-Hjalti), ástmann og síðar eiginmann Önnu stórbónda í Stóru-Borg.

Flestum ætti að vera fært að komast upp í hellirinn en þó er það nokkuð klifur, eða um 4 metrar upp í hellinn og því ekki öllum fær. Nauðsynlegt að fara að öllu með gát en hægt er að styðja sig við kaðal á leiðinni sem gerir klifrið mun þægilegra, en erfiðast er að komast fyrsta spölinn en verður auðveldar sem ofar dregur. Á leiðinni upp má finna hreiðurstæði fýlsins sem hefur komið sér vel fyrir í skútum og á syllum.
Hellismuninn er frekar þröngur en þó er nokkuð auðvelt er að komast inn um hann. Fyrir innan er rúmgóður hellir, um 5,5 metrar á lengd þar sem hann er lengstur og 3 metrar á breidd. Nokkuð hefur verið meitlað af stöfum í hellisveggina. Að innanverðu er helst að finna mosagróður.


Frásögn eftir Jón Gíslason, birt í vikublaðinu Fálkanum, 6. júní 1962:

Svo segir sagan, að vinnupiltur nokkur, umkomulaus, Hjalti Magnússon að nafni, hafi ráðizt að Stóruborg til Önnu. Var hann látinn gæta búfjár í haga og reka á stöðul á málum. Morgun einn í kalsaregni á öndverðum túnaslætti, kom pilturinn heim með féð og var mjög hrakinn og votur. Vinnumenn á Stóruborg voru að slætti. Þeir voru glaðir og reifir af rekjunni því að vel beit og gott til sláttar og von var að góð afköst gleddu hina stórlyndu og auðsælu húsfreyju þeirra. Það var galsi í vinnumönnum við sláttinn og þeir til í allt. Þegar þeir sáu Hjalta koma hrakinn og skjálfandi úr yfirsetunni, fóru þeir að skopast að honum, og töldu hann lítt að manni. Kom þar brátt máli þeirra, að þeir sögðust skyldu gefa honum góð laun, ef hann sýndi nú manndóm sinn og karlmennsku og færi þannig á sig kominn til rekkju húsfreyju og færi upp í hjá henni. Hjalti svaraði þeim fáu og hélt heim til bæjar.

Á leiðinni heim hugleiddi hann hin girnilegu laun, sem hann ætti í vændum, ef hann kæmist upp í hjá húsfreyju. Þegar hann kom inn í bæ, fór hann upp loftstigann er lá að dyngju hennar. En þegar hann kom upp féll honum allur ketill í eld og hörfaði til baka. Gekk svo þrívegis. En í þriðja skipti ávarpaði Anna hann, því henni þótti þetta atferli piltsins harla einkennilegt, og spurði, hvað honum væri á höndum. Hann sagði henni eins og var. Brást Anna vel við erindi hans og mælti: „Tíndu þá af þér leppana, drengur minn, og komdu upp í." Hann lét ekki á sér standa afklæddist og fór upp í til húsfreyju. Segir ekki meira af því, nema piltinum hefur ábyggilega hlýnað fljótlega undir rekkjufötumhinnar stórlyndu konu, og henni féll ekki illa við smalapilt sinn eða hvílubrögð hans, því að þau undu í rúminu frameftir degi og nutu hvors annars eftir vild. Þegar Önnu fannst tími til kominn, sendi hún eftir húskörlum sínum og bað þá ganga til svefnhúss síns og sjá, hvar Hjalti væri niður kominn. Hún gekk ríkt eftir, að þeir gyldu Hjalta launin, sem þeir höfðu heitið honum. Eftir þetta var náið samband milli Hjalta og Önnu. Með þeim tókust góðar ástir og varð Anna fljótt með barni.

Páll lögmaður frétti brátt hversu ástatt var um hagi Önnu og mislíkaði honum stórum framferði hennar, enda var hann giftingarmaður hennar að lögum. Vandaði hann um fyrir systur sinni, en það varð algjörlega árangurslaust. Kom þar brátt, að lögmaður lagði mikla fæð á Hjalta og reyndi að ná lífi hans. Sveinninn ungi, er náði ástum Önnu á Stóruborg, reyndist hinn mesti atgjörfismaður. Sagnir herma, að hann hafi verið lítilla ætta, en líkur benda til þó eigi sé að svo búnu máli hægt að rökstyðja þær, að hann hafi verið af góðum ættum. Hjalti var allra manna fræknastur og búinn hinum beztu íþróttum, sem mann mega prýða, enda þurfti hann mjög á þeim að halda, er fram liðu stundir í viðskiptunum við mág sinn, hinn volduga valdsmann á Hlíðarenda. Svo herma sagnir, að Páll lögmaður hafi gert allt, sem í hans valdi stóð, til þess að ná lífi Hjalta Magnússonar. Þessar sagnir hafa örugglega við rök að styðjast, því að lögum réttum bar Páli lögmanni að hafa tilsjón með siðferði systur sinnar. Sagt er, að brátt yrði Hjalta hvergi öruggt athvarf sakir aðsókna lögmanns.

Anna unni Hjalta mikið og vildi allt til vinna, að geta borgið honum. Hún fékk honum fyrst í stað felustað í hellum skammt frá Stóruborg er Skiphellar nefndust, og voru notaðir til að geyma í skip. Var stutt að flýja í hellana, ef óvin bar að garði á Stóruborg, því að þar dvaldist Hjalti jafnan. Hjalti var allra manna frástur og fullhugi mikill. Eitt sinn er mælt, að Páll lögmaður kom óvænt að Stóruborg, og var Hjalti þar hjá ástkonu sinni. Varð þeim seint fyrir að koma sökum sínum í lag, svo að Hjalti yrði óhultur. Greip Anna þó til þess tvísýna ráðs, að fela Hjalta í kistu einni mikilli og læsti vandlega. Páll lögmaður leitaði Hjalta um allan bæinn og fann hann ekki. Anna vék lítt frá kistu sinni og gaf sig ekki að, hvar leitað væri. Þar kom að Páll spurði hana, hvað væri í kistunni, en hún kvað það barnaplögg sín. Ekki leitaði Páll í kistunni né krafði hana lykla að henni, ef til vill hefur hann þekkt systur sína of vel til þess. Að svo búnu hvarf Páll á braut frá Stóruborg, án þess að hafa neitt af Hjalta.

Þar kom brátt, að Önnu þótti ekki lengur hætt að hafa Hjalta í Skiphellum. Leitaði hún þá til Eyjólfs í Dal Einarssonar, er kvæntur var föðursystur hennar, Hólmfríði Erlendsdóttur. Hann skaut skjólshúsi yfir Hjalta um stund, en útvegaði honum svo felustað, þar sem hann var óhultur fyrir óvinum sínum. Markús hét bóndi á Núpi og var Jónsson. Hann var kvæntur Sesselju systur Eyjólfs í Dal. Markús snérist til liðs við Hjalta og Önnu, og keypti trúnað af bóndanum í Fit undir Útfjöllum, að hann kæmi Hjalta í Fitarhelli, sem er í hömrunum skammt fyrir ofan Fit. Varð Markús bóndi trúnaðarmaður Önnu og Hjalta og útvegaði honum nauðsynjar og gerði honum viðvart um mannaferðir og fleira. Dvaldist Hjalti svo í mörg ár í Hellinum, en hefur án efa oft verið á Stóruborg hjá vinkonu sinni, þegar þeim þótti óhult. Hjalti átti hest afbragðs góðan, brúnan á lit. Hann var lífhestur hans og var allra hesta beztur. Stundum er mælt, að Anna á Stóruborg hafi dvalið í hellinum hjá Hjalta og þau notið þar ásta og óbilandi tryggða : einveru og útlegð. Hjalti undi við margt í hellinum og var lífsglaður og hamingjusamur. Hann var, þrátt fyrir útlegð og ofsóknir, glaður og ánægður með hlutskipti sitt. Margir fundu til með hjónaleysunum á Stóruborg, og þrátt fyrir allt var fólk á einu máli, að þau nytu hamingju og hinna sælustu ásta. Hellirinn við Fit var upp frá þessu nefndur Paradísarhellir, og hefur það jafnan þótt sannnefni.

Eitt sinn reið Páll lögmaður austur undir Eyjafjöll með sveinum sínum. Vatnavextir voru í Markarfljóti og féll það austur undir Fjöll og var illt yfirferðar sem oft vil verða. Á leiðinni yfir fljótið vildi svo illa til, að hestur lögmanns datt undir honum, og féll hann í fljótið og varð viðskila við hann, og rak þegar niður eftir straumiðunni ósjálfbjarga. Sveinum hans féllust algjörlega hendur að bjarga húsbónda sínum, enda þurfti snör handtök og örugg, karlmennsku og þrek til. Var auðséð, hvað fara gjörði, lögmanni var hér búinn bráður dauði. En áður en varði, spratt maður upp í brekkunni undan stórum steini, rann að fljótinu og kastaði sér út í það og svam í áttina gegnt straumiðunni, sem bar lögmann óðfluga niður eftir straumsvelgnum. Hann náði traustu taki á lögmanni og synti með hann til lands, þar sem sveinarnir tóku á móti honum fegins hendi. En maðurinn hljóp í hendingskasti í áttina til Paradísarhellis.
Þegar lögmaður raknaði við eftir volkið, spurði hann sveinana, hver hefði verið svo frækinn að bjarga sér úr fljótinu. Þeim varð fátt til svara, en horfðu vandræðalegir hver á annan, og þorði í fyrstu enginn, að segja lögmanni eins og var. Þar varð þó, að einn þeirra svaraði: „Hjalti mágur þinn." Lögmanni varð illt við þessa fregn en mælti: „Þegja máttir þú, því þögðu betri sveinar," og rak honum löðrung. Eftir þetta er mælt að skapsmunir lögmanns hafi mýkst í garð Önnu og Hjalta.

Samþykkja fótspor

Þetta vefsvæði notar vefkökur (e. cookies) til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefsvæðið. Sjá nánar hér.