Var notaður fyrir sauðfé af Steinabændum öldum saman
Steinahellir
Steinahellir hefur verið notaður fyrir sauðfé af Steinabændum öldum saman. Leifar fyrirhleðslu sjást austast í hellinum innarlega. Árið 1818 var hellirinn settur þingstaður Eyfellinga og gegndi hann því hlutverki fram til 1905. Þingborðið sem var í hellinum er nú varðveitt í Skógasafni. Samkvæmt Matthíasi Þórðarsyni, fyrrverandi þjóðminjaverði, voru skip einnig smíðuð í Steinahelli. Þó er ekki vitað hvenær það var eða hvers konar skip voru smíðuð.
Að líkindum er hellirinn, sem er úr móbergi, að grunninum til náttúrusmíð en svo hefur hann verið dýpkaður og breikkaður. Til eru heimildir fyrir því að Brunna–Sveinbjörn hafi dýpkað hellinn enn meira um 1890.
Svipir, vofur og álfar hafa sést við hellinn og er frægasta sögnin tengd 14 manna áhöfn sem fórst við Fjallasand. Veturinn eftir er skipið strandaða sett upp að Steinahelli um ísilagðan Holtsós. Litlu síðar ríður Þorgils á Rauðnefsstöðum hjá hellinum og mætir þar manni sem segir: „settu með okkur lagsmaður“. Þegar Þorgils kemur nær sér hann 13 svaðalega menn standa hjá skipinu og þykist hann þekkja þar áhöfnina drukknuðu. Þorgils forðaði sér í snarhasti og er þá kveðið á eftir honum:
Ganglaust stendur gnoð í laut,
Gott er myrkrið rauða,
Halur fer með fjörvi braut,
Fár er vin þess dauða,
Fár er vin þess dauða.
Líklega hefur vísan verið ort í orðastað hinna drukknuðu sjómanna löngu eftir atburðinn.
Burkni vex í hellisþaki Steinahellis. Sögur herma að ekki megi slíta upp burknann því þá sé ólánið víst. Bóndi á Steinum reif þar einhverju sinni upp burkna og hrapaði kýr hans fram af hellisberginu skömmu síðar. Önnur saga segir að ferðamaður einn hafi slitið upp burkna óafvitandi um álögin og misst heilsuna fáum árum síðar. Kenndi hann burknatínslunni um heilsutap sitt.
Steinahellir var friðlýstur af Þóri Magnússyni, þáverandi þjóðminjaverði, árið 1975. Steinahellir, líkt og aðrar friðlýstar menningarminjar, er í umsjá Minjastofnunar Íslands. Þil hellisins var endurgert á vegum Minjastofnunar haustið 2015, en þil var á hellinum a.m.k. á 19. öld.
Heimildir: