Sveitin dregur nafn sitt af gróðursælu votlendi sem einkennir svæðið

Álftaversgígar

Sveitin dregur nafn sitt af gróðursælu votlendi sem einkennir svæðið

Álftaversgígar

Álftaver er víðáttumikil sveit sem afmarkast af Kúðafljóti að austan og Blautukvísl að vestan. Sveitin dregur nafn sitt af gróðursælu votlendi sem einkennir svæðið. Ofan og vestan við byggðina eru miklar þyrpingar gervigíga sem kallast Álftaversgígar. Álftaversgígar hafa verndað byggðina að verulegu leyti fyrir jökulhlaupum samfara Kötlugosum.
Álftaversgígar eru friðlýst náttúruvætti.

Hvernig mynduðust Álftaversgígar? 

Sýnt hefur verið fram á að þeir mynduðust í Eldgjárgosinu 939 þegar hraun rann yfir votlendi. Gervigígar myndast þegar glóandi hraunkvika kemst í beint samband við vatnsósa undirlag og veldur hvellsuðu á vatninu. Hraunkvika helluhrauna rennur eftir hraunpípum en þar sem hraunkvikan brýst fram úr hraunpípunum myndast hraunsepar. Hraunsepar þessir belgjast út vegna kvikuflæðis inn í þá en smám saman afmarkast rennslið við fastmótaðar hraunpípur inni í hálfstorknuðu hrauninu. Þegar hraunseparnir belgjast út eykst þyngd þeirra og sekkur hraunið þá í undirlagið uns botnskorpan brestur undir hraunrásinni. Við það fer kvika að renna beint í vatnsósa undirlagið og veldur gufusprengingum þar sem gervigígar myndast á yfirborðinu. Sprengivirknin kemur í veg fyrir frekara hraunrennsli eftir hraunrásinni neðan við gufusprengingarnar og leiðir það til þess að hraunrennslið færist til og nýjar hraunrásir og ný gervigígagos verða til. Þannig gengur þetta koll af kolli þangað til að hraunið hefur unnið sig yfir votlendið og byggt upp þyrpingu af gervigígum. Þar sem mikið vatn er í jarðveginum hlaðast upp gjallhólar en þar sem vatnsmagnið er minna verða til klepragígar og verða þá gígskálarnar litlar og hólarnir oft strýtulaga líkt og algengt er í Álftaversgígum.

Hér finnast samt sem áður hólar af ýmsum stærðum og gerðum og bera þeir margvísleg nöfn. Nokkur dæmi um það má nefna: Vellustrompur, Hundastrompur, Sjödyrahóll, Arnardrangur, Arnarhólar, Götuklettur, Byttuskarð, Nónvarða, Rauðhóll og svo mætti lengi telja. Ekki er alltaf gott að sjá hvaðan nöfn hólanna eru komin, en sagt er að í Hundastrompi hafi þeir hundar verið geymdir sem ekki máttu elta húsbændur sína í göngur og Nónvarða er notuð sem eyktarmark frá Herjólfsstöðum.