Jökulinn og eldfjallið

Eyjafjallajökull

Jökulinn og eldfjallið

Eyjafjallajökull

Eyjafjallajökull er sjötti stærsti jökull landsins, 1666 metra hár og þekur um 80 ferkílómetra. Frá honum ganga nokkrir skriðjöklar, þeir stærstu eru Steinholtsjökull og Gígjökull sem báðir ganga niður norðurhlíð jökulsins. Jökullinn telst til svonefndra hjarnjökla, sem eru einkennandi fyrir heimskautalönd og fjallendi þar sem veðrátta er köld. Ávallt eru þessir jöklar þykkir með flatt yfirborð sem hallar jafnt og þétt út til jaðranna, en til þessa flokks teljast stærstu jöklar jarðarinnar, og má þar nefna Suðurskautsjökulinn (13 milljón ferkílómetrar) og Grænlandsjökul (1,8 milljón ferkílómetrar).
(Einarsson, Þ. (1991). Myndun og mótun lands: jarðfræði. Mál og menning.)

Segja má að ankaramít sé einkennis bergtegund Eyjafjalla. Henni kemur víðsvegar fyrir um öll Eyjafjöll ásamt Goðalandi og allt frá Stóradal austur að sýslumörkum og frá láglendi upp á háhrygg Fimmvörðuháls, ýmist sem mislaga innskot eða sem hraun. Talið er að síðast hafi gosið ankaramíti austast á Fimmvörðuhálsi og þá mjög líklega á nútíma.
(Jónsson, J. (1998). Eyjafjöll: drög að jarðfræði)

Gosið sem átti sér stað árið 2010 eins og frægt varð, gaus upp til að byrja sem lítið flæðigos um sprungu sem myndaðist á norðanverðum Fimmvörðuhálsi. Gos það hófst 20. mars og stóð yfir í 23 daga. Hálfum öðrum degi seinna, 14. apríl, vaknar fjallið aftur með sprengigosi í toppöskju Eyjafjallajökuls þar sem nokkur jökulhlaup fylgdu fyrstu dagana. Mikil aska dreifiðst um Norður-Atlantshafsvæðið og ekki lá á löngu þar til ösku varð vart á meginlandi Evrópu og flugumferð lá niðri til mikilla ama ferðalanga. Gosið hélt virkni sinni með mismiklum krafti fram að 18. maí, en þá fór að draga úr uppstreymi kviku og gosmökkur fór að rýrast þar til samfelldu gosi lauk um kvöldið 22. maí. 


Af Vísindavefnum:

Aðdragandi gosanna í Eyjafjallajökli 2010 - Fyrir 1992 voru skjálftar nánast óþekktir undir eldfjallinu. Virknin jókst lítillega þangað til 1994 en þá brast á skjálftahrina. Mælingar á aflögun bentu til þess að þá hafi orðið kvikuinnskot undir fjallinu. Aftur gerðist svipaður atburður 1999. Tíu árum síðar, sumarið 2009, bentu aflögunarmælingar enn til lítils háttar innskots undir fjallinu. Þegar leið að jólum það ár fór aftur að bera á landrisi og aukningu í skjálftavirkni og ágerðust hreyfingarnar mjög fyrstu mánuði ársins 2010. Var þá ljóst að hverju stefndi. Kvikuinnskotið braust í átt til yfirborðs og hófst gos á Fimmvörðuhálsi 20. mars. Gosið var lítið, en rúmum sólarhring eftir að því lauk braust út annað eldgos úr toppgíg fjallsins 14. apríl. Telja má víst að kvikan sem fóðraði gosið á Fimmvörðuhálsi hafi fundið sér leið að kvikuhleif undir toppi fjallsins og kynt undir honum þangað til úr honum gaus. Eyjafjallajökulsgosin áttu sér sem sagt 18 ára aðdraganda og snemma á þeim tíma lágu fyrir nokkuð réttar hugmyndir um hvað væri á seyði.

 

 

Meðfylgjandi mynd sýnir þversnið í gegnum eldstöðvarnar tvær frá vestri til austurs og gefur yfirlit um niðurstöður jarðeðlisfræðilegra mælinga um innviði þeirra. Sjá má kvikuinnskotin frá 1994, 1999 og 2009 undir Eyjafjallajökli, ásamt ganginum sem fóðraði gosið á Fimmvörðuhálsi. Undir öskju Kötlu má sjá grunnstætt kvikuhólf, smáganga sem náð hafa yfirborði í litlum gosum, súra hraungúla (e. lava domes) utan við öskjurimana, og hugsanlegan leynigúl (e. cryptodome) sem ekki hefur enn náð yfirborði. Á myndinni kemur skýrt fram hversu ólíkar eldstöðvarnar eru að allri gerð. Nánar má lesa um þetta í grein Páls Einarssonar og Ástu Rutar Hjartardóttur í tímaritinu Jökli frá 2015.