Sólheimasandur & Sólheimaheiði
Sólheimajökull
Sólheimajökull:
Sólheimajökull er skriðjökull og er um 11 km langur með upptök í suðvesturhluta Mýrdalsjökuls. Þaðan skríður jökullinn niður úr um 1350 m hæð yfir sjávarmáli niður í gegnum 1-2 km breiðan dal og endar í um 100 m hæð. Jöklunarmörkin á sunnanverðum Mýrdalsjökli eru í um 1100 m hæð, en fyrir ofan jöklunarmörkin er ákomusvæði jökulsins þar sem ákoman er meiri en bráðnun, en fyrir neðan hana er leysingarsvæði jökulsins þar sem bráðnun er meiri en ákoman. Stór hluti Sólheimajökuls er því fyrir neðan jöklunarmörkin og helst því þar aðeins vegna tilstuðlan ísskriðs ofan frá.
Miklar breytingar hafa orðið á Sólheimajökli á seinustu hundrað árum, en frá árinu 1930 hafa verið gerðar reglulegar mælingar á jökulsporðinum. Með niðurstöður þeirra mælinga og með loftmyndum hefur verið hægt að skoða hopunarsögu hans. Á milli 1930 og 1969 hopaði jökulinn um 977 m en þar á eftir kólnaði veðurfar og jökulinn skreið aftur fram til ársins 1995. Þá lengdist jökulinn um 495 m og þykknaði um allt að 100 m. Síðan 1996 hefur jökullinn hins vegar hopað á hverju ári, samtals um 1312 m (2019), og er kominn 1794 m innar í dalinn en hann var árið 1930. Ef þessi þróun heldur áfram gæti jökulinn horfið að mestu á næstu 100 til 200 árum. Lón hefur nú myndast fyrir framan jökulsporðinn en það byrjaði að koma fram í kringum árið 2011. Lónið hefur verið að stækka og dýpka undanfarin ár, samhliða hopi jökulsins, og er nú um 60 metra djúpt. Lónið mun halda áfram að stækka á meðan jökulinn hopar og er talið að það gæti orðið allt að 4 km að lengd á næstu áratugum ef núverandi þróun heldur áfram.
Skriðjöklar:
Jöklar á Íslandi eru almennt þíðjöklar, sem þýðir að hitastig íssins er við frostmark og því finnst vatn í og undir jöklinum. Það auðveldar aflögun og flæði íssins, en jöklar skríða fram bæði vegna eigin þunga og halla í landslaginu undir þeim. Skriðhraðinn fer eftir vatnsmagni við botn jökulsins, hitastigi íssins og halla undirlags hans, og er hraðinn mun meiri á sumrin en veturna vegna meira vatnsmagns við undirlag jökulsins. Sprungur eru algengar á skriðjöklum og myndast þegar þeir skríða yfir ójöfnur í landslaginu eða dragast meðfram fjallshlíðum. Sprungurnar myndast í efstu 20-30 metrunum af ís þar sem hann er stökkur, en ísinn er þjáll á meira dýpi og brotnar því ekki. Mikið getur verið af bergmylsnu undir, í og ofan á skriðjöklum og kallast jökulruðningur. Bergmylsnan er bæði tilkomin vegna grjóthruns sem lendir á jöklunum og vegna rofs á berggrunninum undir jöklum, en getur einnig verið gjóska. Jökullinn ber ruðninginn með sér og myndar hann oft svört, þykk lög ofan á sporði jökulsins áður en efnið hleðst upp í jökulgarða fyrir framan jökulinn. Ruðningurinn getur haft áhrif á afkomu jökla þar sem hann hraðar bráðnun ef hann er þunnur (1-2 cm) en hægir á bráðnun jökulsins því þykkari sem hann verður. Mikið er af merkum setlögum og landformum við Sólheimajökul og hefur svæðið verið mikið nýtt í að rannsaka bæði jöklunar- og umhverfissögu Íslands á seinustu áratugum. Okkur ber því skilda að ganga vel um og varðveita þessi landform. Gönguleið liggur frá bílastæðinu að Sólheimajökli, og ætti ekki að ganga út fyrir hann. Þá eru einnig nokkrar gönguleiðir á svæðinu, en þær má nálgast með Wappinu.