Fundargerð - 19. október 2020

56. fundur stjórnar Kötlu jarðvangs haldinn í fjarfundi, mánudaginn 19.10 2020 kl. 13:30.

Mætt: Eva Björk Harðardóttir, Lilja Einarsdóttir í forföllum Antons Kára Halldórssonar, Einar Freyr Elínarson í forföllum Þorbjargar Gísladóttur, Björg Árnadóttir, og Sigurður Sigursveinsson sem ritaði fundargerð. Einnig sat fundinn framkvæmdastjóri jarðvangsins, Berglind Sigmundsdóttir, og Jóhannes M. Jóhannesson verkefnastjóri sem sat hluta fundarins.

Eva Björk, í forföllum formanns stjórnar, setti fund. Gengið var til áður boðaðrar dagskrár.

1.       Fundargerðir 54. og 55. fundar verða staðfestar með tölvupóstum í kjölfar fundarins.

 

2.       Verkefnastaðan - hröð yfirferð

 ·         Verkefnin í vinnslu undanfarið:

o   Berglind fór yfir stöðuna;

§  Tveggja daga stafrænn fundur í Tengslaneti evrópskra jarðvanga í sept.

§  Greint frá gerð heimasíðu fyrir samráðshóp íslenskra jarðvanga

§  Jóhannes og Vala hafa verið með skipulagða dagskrá í tvo daga til að taka á móti nemendum frá Víkurskóla

§  Áframhaldandi samstarf við Hvolsskóla, nú um kynningu í náttúrufræðitímum

§  Búið að skila framvindu/fjárhagsskýrslu um Ruritage verkefnið

§  Samstarf við forsætisráðuneytið um skilti við Sólheimajökul

§  Umsóknir í framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Núna að mestu á vegum sveitarfélaganna sjálfra í samvinnu við tengiliði jarðvangsins

§  Norrænt verkefni nýfarið af stað, m.a. í samvinnu við Vatnajökulsþjóðgarð og Framhaldsskóla Austur-Skaftafellssýslu, https://geoheritage.fas.is/

§  Alþjóðadagur viðbragða við jarðvá,  13. okt. Í undirbúningi er kennslustund á netinu 29. október í samvinnu við Veðurstofuna

§  Jóhannes gerði grein fyrir stöðunni á Ruritage. Í byrjun október var Jóhannes með kynningu á evrópskum vettvangi um Kötlu jarðvang. Síðan hafa verið haldnar tvær vinnustofur á netinu með heimamönnum, þar sem valdar voru þrjár verkefnishugmyndir til að vinna með nánar en 31. mars þarf að skila fullunninni afurð til Ruritage;

·         auka þekkingu og viðbúnað einstaklinga varðandi náttúruvá innan jarðvangsins,

·         rannsaka og varðveita gamlar ferðaleiðir innan jarðvangsins og þær hefðir/hjátrú sem gæti tengst þeim – auka við þekkingu um svæðið og arfleifð þess,

·         kynna og innleiða samstarfsverkefni milli fyrirtækja innan jarðvangsins (byggt á verkefninu VíkUnited).

o   Erlend samstarfsverkefni

§  Nokkrar umsóknir í deiglu.

 

·         UNESCO Global Geoparks ráðstefna á Íslandi 2023.  

o   Stjórn veitir umboð til að vinna áfram að verkefninu í samvinnu við stjórnvöld.

 

·         Ákall UAR vegna friðlýsingar á jarðvættum

o   Drumbabót. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur verið í sambandi við jarðvanginn varðandi mögulega friðun á Drumbabót. Í dag er hverfisvernd á drumbunum sjálfum. Formleg friðlýsing þýddi að jafnaði að staðurinn yrði á ábyrgð Umhverfisstofnunar. En beiðni um friðlýsingu gæti komið frá sveitarfélaginu í samvinnu við jarðvanginn. Landeigandi er jákvæður fyrir þessum áformum. Jarðvangurinn hefur fengið ábendingar í úttektum að friða þurfi þessar jarðminjar. Að mati ráðuneytisins fellur verkefni sem þetta vel að samstarfssamningnum milli jarðvangsins og ráðuneytisins. Í beiðni um friðlýsingu gæti jafnframt verið beiðni um að jarðvangurinn sæi sjálfur um umsjón með svæðinu og gæti þannig verið farvegur fyrir greiðslur til jarðvangsins. Stjórnin samþykkir þessi áform fyrir sitt leyti.

o   Þá mætti hafa þessi viðhorf til hliðsjónar við úttekt á jarðvættunum almennt, þ.e. hvort skynsamlegt væri að leita eftir friðun fleiri jarðvætta og gera í framhaldinu samninga við ráðuneytið um umsjón með þeim.

·         Fræðsla um jarðvanginn – námskeið

o   Samtal er í gangi við Vinnumálastofnun um almennt námskeið um jarðvanginn fyrir atvinnuleitendur nú í haust, og hugsanlega annað stærra eftir áramótin.

 

3.       Stefnumótun Alta – næstu skref og kynning á áætluninni sem er í vinnslu

 

·         Berglind rifjaði upp verkefnin, sbr. fundargerð 54. fundar stjórnarinnar. Þar var m.a. kveðið á um vissa forgangsröðun; t.d. vinnu við merkingar og skilti (4.1) og stjórnun og uppbygging innviða (4.6). Á næsta fundi verði farið yfir stöðu þeirra verkefna með Antoni Kára og Þorbjörgu.

·         Berglind fylgdi úr hlaði ítarlegri greiningu á verkefnunum framundan. Niðurstaða hennar er að mörg þeirra þurfi að byggja á svæðismörkuninni (sem lögð er til í tillögum Alta). Fram kom að nýlega fékk Svæðisgarðurinn á Snæfellsnesi 5,7 mkr öndvegisstyrk úr Uppbyggingarsjóði Vesturlands til að vinna að svæðismörkun Snæfellsness. Samþykkt að reyna að fá Ragnhildi Sigurðardóttur hjá Svæðisgarðinum á fund um málefni svæðismörkunar og Berglind hefur leitað eftir upplýsingum frá samstarfsaðilum. Einnig verði skoðaðar frekar tillögur Alta um rammaskipulag og mögulega aðkomu Skipulagssjóðs að slíku verkefn.

 

Fjarfundi slitið kl. 15:03.

Samþykkja fótspor

Þetta vefsvæði notar vefkökur (e. cookies) til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefsvæðið. Sjá nánar hér.